Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. nóvember 2017: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1663466/
“Fullgild náttúruverndarrök, öryggisrök og sanngirnisrök, íslensk og alþjóðleg, eru fyrir því að halda Vonarskarði lokuðu áfram fyrir vélvæddri umferð.”
Viðtal við Snorra Ingimarsson í Mbl. 18.10 sl. og fleiri skrif hans um svarta náttúruvernd og Vonarskarð hafa vakið athygli. Snorri situr sem áheyrnarfulltrúi í stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir Samtök útivistarfélaga, SAMÚT. Þar hefur hann beitt sér fyrir því að ökuslóð um Vonarskarðsöskjuna verði opnuð aftur fyrir vélvæddri umferð, en undirritaður, þá þjóðgarðsvörður á vestursvæði þjóðgarðsins, lokaði slóðinni árið 2011 í samræmi við ákvörðun stjórnar þjóðgarðsins þá.
Áður en lengra er haldið má benda á að hugtakið „svört náttúruvernd“ snýst ekki um ferðamáta fólks heldur um viðhorf þess til verndar óbyggðanna. Hugtakið er áratuga gamalt og var upphaflega notað í niðrandi merkingu um þá sem börðust gegn lagningu háspennulína yfir víðernin norðan Vatnajökuls og suður yfir Sprengisand.
Þá er líka rétt að taka fram að SAMÚT er ekki fulltrúi allra útivistarfélaga landsins. Ferðafélag Íslands, eitt stærsta og elsta útivistarfélagið, á t.d. ekki sæti í SAMÚT. Ferðafélagið deilir ekki skoðun SAMÚT um að leyfa vélvædda umferð um Vonarskarð að því ég best veit. Fjölmargir einstaklingar sem ég þekki eru líka ósammála SAMÚT að þessu leyti. Fólk skiptist einfaldlega í tvö horn með og á móti og allir hafa eitthvað til síns máls.
Rök með lokun
Sjálfur vil ég ekki leyfa vélvædda umferð um Vonarskarð af eftirfarandi ástæðum:
• Mjög algengt er að þjóðgörðum sé skipt upp í svæði með misstrangri friðun allt frá þjónustusvæðum með öllum helstu innviðum og þægindum yfir í hrein víðerni og náttúruvé þar sem umsvif og áhrif manna eru lítil sem engin. Fjölbreytni af þessu tagi eykur gildi þjóðgarða.
• Vonarskarð er afskekkt – í miðju landsins. Að því liggja erfiðir fjallvegir og um það hafa fáir farið hvort sem er gangandi, ríðandi eða akandi. Skarðið er því enn svo til ósnortið af þeirri nýtingu sem svo víða hefur sett mark sitt á landið; undanskilin eru nefnd ökuleið sem er nánast horfin og varnargarðar sem Landsvirkjun ýtti upp á sínum tíma og þyrfti að fjarlægja.
• Í Vonarskarði skiptast á svartir, þurrir sandar, sandbleytur, fjölbreytt háhitasvæði og mýrlendi í yfir 900 m hæð yfir sjávarmáli; vaxtartími er stuttur og allar skemmdir á gróðri og hveraumhverfi alvarlegar og langvarandi. Náttúrufræðingar telja verndargildi Vonarskarðs vera mjög hátt og leggja til að verndarstigi verði breytt til að endurspegla það mat.
• Meirihluti svæðisráðs vestursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs, sem gætir hagsmuna sveitarfélaga og félagasamtaka vestan jökuls, leggur til að Vonarskarð verði áfram lokað fyrir vélvæddri umferð og að vernd þess verði tryggð enn frekar.
• Akstursleið um öskjubotninn bætir vissulega aðgengi að helstu djásnum Vonarskarðs en um leið rýrir hún víðernisgildi svæðisins og eykur hættu á fjöldaferðamennsku. Það er óþarfa áhætta þegar þess er gætt að aðeins 4-5 tíma auðveld gönguferð er fram og til baka frá bílastæði við Svarthöfða að hverasvæðinu í hjarta öskjunnar; til samanburðar leggja fjölmargir á sig 14-16 tíma erfiða gönguferð á Hvannadalshnjúk.
• Þörfin fyrir landvörslu ykist með fleiri ferðamönnum en vegna þess hve leiðir frá Nýjadal að Vonarskarði eru seinfarnar er landvarsla í Vonarskarði erfið og dýr.
• Þótt botn öskjunnar í Vonarskarði sé víðast sléttur sandur lá akstursleiðin yfir vatnsmikla jökulá, Köldukvísl, að sunnanverðu, sandbleytur í Rauðá og snarbratt klif, Gjóstuklif, að norðanverðu. Ökuleiðin um Vonarskarð var því varasöm og alls ekki á færi allra. Jafnvel þótt ný leið yrði valin austar í skarðinu, þyrftu ökumenn að fara yfir Köldukvísl og ála Skjálfandafljóts.
• Vatnajökulsþjóðgarður spannar yfir 14.000 ferkílómetra lands. Um hann liggja yfir 900 km af vegslóðum sem má aka og akstur á frosinni, snæviþakinni jörð utan vega er leyfður á líklega um 90% garðsins, þ.m.t. í Vonarskarði.
• Meðan stöðugt gengur á víðerni jarðar er erfitt að réttlæta lagningu nýs vegslóða um algerlega ósnortið land austan til í Vonarskarðsöskjunni.
Lokaorð
Fullgild náttúruverndarrök, öryggisrök og sanngirnisrök, íslensk og alþjóðleg, eru fyrir því að halda Vonarskarði áfram lokuðu fyrir vélvæddri umferð. Þeir starfshópar og ráð sem skoðað hafa þessi mál hafa jafnan klofnað í afstöðu sinni, með og á móti slíkri umferð. Snorri nefnir að áhugamenn um akstur í þjóðgarðinum hafi endurheimt Vikrafellsleið og að fyrir þeirra orð hafi hættulegum leiðum um norðurbakka Langasjávar og Blautulón verið haldið opnum. Er þá ekki sanngjarnt að Vonarskarð verði áfram griðland göngufólks?
Höfundur: Snorri Baldursson